Ljúft kaffispjall á vetrarmánuðum
Kaffispjallið hefur verið liður í félagsstarfi Félags fósturforeldra um árabil. Lengi hafði það aðsetur í Perlunni en viðburðurinn hefur farið fram á ýmsum stöðum bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.
Með nýju aðsetri í Mannréttindahúsinu var ákveðið að blása aftur lífi í þennan góða og mikilvæga vettvang fósturforeldra til að hittast og ræða saman svo fólk gæti sótt sér eða deilt deilt reynslu og fengið styrk frá félagsskapnum. Þannig var ákveðið að festa í sessi kaffispjall á fyrsta þriðjudagskvöldi hvers mánaðar.
Fyrsta kaffispjallið var í nóvember þar sem Aldís Arna flutti fróðlegt erindi um leitina að gleðinni. Góður 10 manna hópur tók þátt bæði í persónu og í gegnum fjarfund og voru góðar umræður að erindi loknu.
Í desember var svo brugðið á það ráð að fá jólaglögg frá Reykjavík Coktails og deila þannig samverustund og tilhlökkun eftir jólum. Mæting var ögn meiri en í nóvember og áttu viðstaddir notalega stund þar sem ýmist mál voru rædd og aðgerðir fylgdu svo eftir. En vegna umræðna á kaffispjallinu hefur félagið síðan átt samtal við Þjóðskrá, barnaverndarþjónustu Reykjavíkur og Barnamálaráðuneyti um vanda tengdan skilríkjum barna með erlent ríkisfang og eitt slíkt mál fengið farsæla niðurstöðu í kjölfar þess.
Félagið heldur áfram að standa fyrir Kaffispjalli á nýju ári en mikilvægi viðburðarins fyrir félagsfólk og gagnsemi hans fyrir hagsmuni heildarinnar eru ótvíræðir.
Kaffispjallið 2025
Áfram verður kaffispjallið fyrsta þriðjudag hvers mánaðar nema í janúar þar sem við ýtum því aftur um eina viku. Væntanlegar dagsetningar í vor eru því: 14. janúar 4. febrúar 4. mars 8. apríl 6. maí
Comments